Crossfitkonan Annie Mist Þórisdóttir hefur gefið það út að hún muni ekki taka í The Open í ár, í fyrsta sinn frá árinu 2009, og taki því ekki þátt á heimsleikunum.
Ástæðuna má rekja til þess að Annie Mist þykir öryggismál Crossfit samtakanna enn vera í ólestri eftir að Serbinn Lazar Djukic drukknaði við keppni á síðasta ári.
„Ég get ekki tekið þátt í The Open í ár af siðferðislegum ástæðum. Það verður í fyrsta sinn frá árinu 2009 eða síðan opni hlutinn fór fram í fyrsta skipti. Ég mun því ekki taka þátt í heimsleikunum á þessu ári.
Ég mun samt gera æfingarnar í stöðinni minni en ég get ekki stutt við þetta,“ sagði Annie Mist í heimildarmyndinni These Women Changed Fitness Forever, sem fjallar um hana ásamt Söru Sigmundsdóttur og Katrínu Tönju Davíðsdóttur.
Annie Mist útskýrði ákvörðun sína nánar í myndskeiði sem hún birti á Instagram-aðgangi sínum.
„Þessi ákvörðun hefur legið mjög þungt á mér og ég vil útskýra betur af hverju ég tók hana. Ég átta mig á því að slys geta átt sér stað en við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir slys og sjá til þess að öll öryggisatriði séu í lagi.
Það er mjög erfitt fyrir mig að trúa að því að það hafi verið raunin miðað við það sem gerðist. Þetta snýst ekki bara um það hvernig þetta gerðist heldur einnig hvernig var brugðist við í framhaldinu,“ sagði hún meðal annars.