Dómari í nútímafimleikum frá Kýpur hefur verið úrskurðaður í fjögurra ára bann fyrir að hækka einkunnir löndu sinnar með það fyrir augum að koma henni á Ólympíuleikana í París síðasta sumar.
Alþjóðafimleikasambandið, FIG, komst að þeirri niðurstöðu að Evangelia Trikomiti hafi breytt skori Veru Tugolukova til þess að sjá til þess að sú síðarnefnda tryggði sér síðasta lausa sætið sem keppendum frá Evrópu stóð til boða.
Tugolukova, sem fæddist í Rússlandi og hóf að keppa fyrir Kýpur árið 2022, hafnaði í 16. sæti í nútímafimleikum á leikunum í París. Hún er aðeins 16 ára gömul og fær sjálf ekki bann.
„Trikomiti fær ekki að hafa nein afskipti af nokkru tengdu fimleikum, fyrir utan þjálfun, næstu fjögur ár frá og með deginum sem þessi ákvörðun var tilkynnt. Fimleikasamband Evrópu er látið sæta ábyrgð fyrir brotið sem Trikomiti framdi,“ sagði meðal annars í úrskurði FIG.