Skíðakonan Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir lenti í óskemmtilegu atviki á æfingu fyrir brun á HM í alpagreinum í Saalbach í Austurríki í dag.
Loftpúði sem hún var með innan klæða til að vernda hana frá slysum sprakk snemma í brautinni með þeim afleiðingum að Hólmfríður náði ekki að nýta æfinguna eins og hún vonaðist til.
„Loftpúðinn sprakk hjá mér í beygju þrjú. Þetta er svona loftpúði sem er tengdur við bakbrynjuna. Þetta var eins og að vera kýld í loftinu.
Ég datt ekki heldur sprakk hann bara út og ég missti andann,“ er haft eftir henni á heimasíðu Skíðasambands Íslands.
Henni tókst ekki að ljúka keppni í risasvigi í gær en keppir í bruni á laugardag og svigi og stórsvigi eftir helgi.