Skautafélag Akureyrar vann Fjölni, 5:3, í hörkuleik á Íslandsmóti karla í íshokkí í Skautahöllinni á Akureyri í dag og enn meiri spenna var í kvennaleik félaganna í kvöld þar sem úrslitin réðust í bráðabana.
Mikill hiti var í karlaleiknum og margar brottvísanir en úrslitin réðust á tveggja mínútna kafla í þriðju lotu þegar SA skoraði þrjú mörk á tveimur mínútum og komst í 4:2, og bætti fimmta markinu við skömmu fyrir leikslok.
SA er þá komið með 32 stig í efsta sæti deildarinnar, SR er með 26 stig, Fjölnir 21 og SFH rekur lestina með 11 stig.
Orri Blöndal, Gunnar Arason, Hafþór Sigrúnarson, Róbert Hafberg og Unnar Rúnarsson skoruðu fyrir SA og þeir Atli Sveinsson og Jóhann Leifsson áttu tvær stoðsendingar hvor.
Liridon Dupljaku, Viggó Hlynsson og Úlfar Andrésson skoruðu fyrir Fjölni og Hilmar Sverrisson átti tvær stoðsendingar.
Kvennaleikur sömu félaganna fór síðan fram í gærkvöld og þar vann SA, 4:3, eftir framlengingu og bráðabana, en staðan var 3:3 eftir venjulegan leiktíma.
Fjölnir komst þrisvar yfir í leiknum sjálfum en SA jafnaði þrisvar. Amanda Bjarnadóttir, Guðrún Ásta Valentine og Kolbrún Björnsdóttir skoruðu fyrir SA en mörk Fjölnis skoruðu Teresa Snorradóttir, Eva Hlynsdóttir og Berglind Leifsdóttir.
Fjölnir heldur þó efsta sæti deildarinnar með 24 stig, SA er með 22 stig og SR 8 stig þegar öll liðin hafa leikið 12 leiki og eiga fjóra leiki eftir hvert áður en úrslitakeppnin fer af stað.
Liðin mætast aftur á Akureyri annað kvöld sunnudagskvöld, klukkan 18.45.