Gamla ljósmyndin: Methafi á MÍ 1949

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Gamla ljósmyndin á mbl.is er að þessu sinni frá árinu 1949 en svo langt hefur ekki verið farið í þessum dagskrárlið til þessa en komið hefur verið við á árunum 1950 og 1951 sem voru merkileg ár í íslensku íþróttalífi. 

Hér sést KR-ingurinn Hafdís Ragnarsdóttir koma fyrst í mark í 80 metra grindahlaupi á Meistaramóti Íslands í ágúst árið 1949 en keppt var á Melavellinum. Hljóp hún á 15,2 sekúndum og setti um leið Íslandsmet í greininni en síðar breyttist vegalengdin úr 80 í 100 metra í kvennaflokki. 

Ásthildur Eyjólfsdóttir úr Ármanni varð önnur skammt á eftir en hún átti eldra metið sem Hafdís sló í hlaupinu. Hægra megin sést í Erlu Guðjónsdóttur úr Ármanni sem hafnaði í þriðja sæti og vinstra megin er Edda Björnsdóttir úr KR sem varð fjórða. 

Í umfjöllun Morgunblaðsins um mótið hinn 23. ágúst 1949 segir að „kvenfólkið sé í áberandi framför“. Hafdís setti annað met á MÍ að þessu sinni og var það í 4x100 metra boðhlaupi en í sveit KR voru einnig þær Guðmunda Guðmundsdóttir, Margrét Margeirsdóttir og Sesselja Þorsteinsdóttir. 

Hafdís var greinilega vel upplögð í mótinu því hún varð einnig Íslandsmeistari í 100 metra hlaupi á 13,4 sekúndum. Sesselja varð önnur og Soffía Finnbogadóttir úr UMSK varð þriðja. 

Myndina góðu tók ljósmyndarinn þekkti Ólafur K. Magnússon sem kallaður hefur verið brautryðjandi í blaðaljósmyndun hérlendis og myndaði fyrir Morgunblaðið í hálfa öld. 

Fyrir áhugasama má geta þess að bók um Ólaf K. kom út á síðasta ári eftir Önnu Dröfn Ágústsdóttur og ber heitið Óli K. 

Meistaramót Íslands í frjálsum var fyrst haldið árið 1927 og þá einmitt á Melavellinum. Fyrir 1927 höfðu frjálsar íþróttir verið fyrirferðamiklar á Allsherjarmóti ÍSÍ. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka