Keppendur úr Mjölni stóðu í ströngu um síðustu helgi þegar fjórir þeirra tóku þátt í Goliath Fight Series MMA keppninni í Skotlandi og unnu bardaga sína, allir með tölu, á laugardagskvöldið.
Fyrir hönd Mjölnis kepptu þeir Aron Franz Bergmann Kristjánsson, Logi Geirsson, Steinar Bergsson og Viktor Gunnarsson en Viktor var í aðal bardaga kvöldsins þar sem keppt var um titilinn í bantamvigt.
Í öllum bardögunum var keppt samkvæmt áhugamannareglum í MMA. Óhætt er að segja að keppendurnir úr Mjölni hafi staðið sig vel því allir fóru þeir með sigur af hólmi, þar á meðal í titilbardaganum. Þjálfararnir Gunnar Nelson og Matthew Miller fylgdu strákunum út og voru í horninu þeirra.
Aron var fyrstur í búrið þar sem hann mætti Talib Moad. Bardaginn stóð í allar þrjár loturnar en Aron tók Talib niður bæði í 2. og 3. lotu án þess þó að ná að að klára bardagann þaðan. En þetta dugði til því Aron sigraði á klofnum dómaraúrskurði.
Næstur í búrið var Logi gegn Shaun Sharif en Logi er núverandi Íslandsmeistari í uppjafarglímu á Íslandi. Það er skemmst frá því að segja að Shaun átti aldrei möguleika í Loga sem kastaði honum í gólfið á fyrstu mínútu bardagans, tók bakið og læsti inn RNC uppgjafartaki sem kláraði bardagann á innan við mínútu.
Steinar mætti svo Daniel Neill í þriðja bardaga íslensku keppendanna. Steinar sótti grimmt strax í upphafi og lenti nokkrum góðum höggum. Það sást strax í byrjun að Steinar var mun betri standandi og nær lágsparki í hægri fótinn á Daniel strax í byrjun. Steinar sækir áfram og Daniel fellur í gólfið og gefur strax merki um uppgjöf. Svo virðist sem hann hafi orðið fyrir meiðslum á hné, hugsanlega eftir lágsparkið hjá Steinari, og úrslit tæknilegt rothögg Steinari í vil, sem leit mjög vel út þó bardaginn hafi verið stuttur. En bæði bardagi hans og Loga voru innan við mínútu.
Viktor mætti þá Owen Usman í aðal bardaga kvöldsins um bantamvigtar titilinn. Þar sem um titil bardaga var að ræða var hann fimm lotur, þar sem hver lota er fimm mínútur, á meðan aðrir áhugamannabardagar eru 3x3 mínútur. Owen var ósigraður fyrir bardagann en Viktor sýndi yfirburði sína strax í upphafi og sótti fast og náði Owen hvað eftir annað í fellur og hafði yfirburði á gólfinu.
Í lok annarrar lotu náði Viktor að skella í glæsilegan armbar en bjallan bjargaði Owen. Nokkrar sekúndur í viðbót hefðu klárað málið. Viktor tók hins vegar bakið á Usman bæði í hverri lotunni eftir annarri og þó hann næði ekki að koma inn uppgjafartakinu vann hann mjög öruggan sigur á einróma dómaraúrskurði og kemur heim með beltið.