Schumacher-fjölskyldan ósátt við fangelsisdóminn

Michael Schumacher.
Michael Schumacher. AFP

Markus Fritsche, fyrrverandi öryggisvörður ökuþórsins fyrrverandi Michaels Schumachers, var í vikunni dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir að reyna að kúga fé út úr Schumacher-fjölskyldunni.

Dómurinn féll í þýsku borginni Wuppertal en Fritsche hótaði að birta sjúkraskrár Michaels eftir að honum var sagt upp störfum af fjölskyldunni en sjúkraskránum stal hann af heimili Schumacher-fjölskyldunnar.

Vitorðsmenn Fritsche, þeir Yilmaz Tozturkan og sonur hans Daniel Lins, fengu einnig dóma en Yilmas setti sig í samband við Schumacher-fjölskylduna til að byrja með og reyndi að hafa af henni fé.

Viðbjóðsleg framkoma

Yilmaz fékk þyngsta dóminn eða þriggja ára fangelsisdóm og sonur hans Daniel Lins fékk sex mánaða skilorðsbundinn dóm.

„Þetta var viðbjóðsleg framkoma af minni hálfu,“ sagði Yilmaz í réttarhöldunum. „Það tók mig ekki langan tíma að átta mig á því og ég sé eftir gjörðum mínum,“ bætti hann við.

Schumacher-fjölskyldan var ekki sátt við refsinguna og hefur farið fram á það við þýska dómstóla að refsingar þremenningana verði þyngdar umtalsvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert