Gamla ljósmyndin: Vann 35 alþjóðleg mót

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Heimsmeistaramótið í alpagreinum skíðaíþrótta stendur nú yfir í Austurríki eins og íþróttaunnendur vita. 

Akureyringurinn Dagný Linda Kristjánsdóttir komst í hóp 20 bestu í heiminum þegar hún hafnaði í 19. sæti í tvíkeppni á HM í Sviss árið 2003. Í tvíkeppni er tími í bruni og svigi lagður saman. Greinarnar eru afar ólíkar og því þarf fjölhæfni til að ná langt. 

Á meðfylgjandi mynd er Dagný Linda á leið niður brautina í svigi á skíðalandsmóti í Seljalandsdal á Ísafirði en myndavélina mundaði sveitungi hennar Kjartan Þorbjörnsson eða Golli sem myndaði í áraraðir fyrir Morgunblaðið og mbl.is.

Myndin sýnir ágætlega hversu langt skíðafólkið þarf að halla sér til að komast sem hraðast í gegnum beygjurnar og mikinn styrk þarf því til að rétta sig aftur við á þessum hraða. Dagný varð átján sinnum Íslandsmeistari í alpagreinum. 

Dagný Linda keppti þrívegis á HM. Í St. Anton í Austurríki árið 2001, St. Moritz árið 2003 og Åre í Svíþjóð árið 2007. 

Hún er tvöfaldur ólympíufari og keppti í Salt Lake City árið 2002 og í Tórínó árið 2006. Hún hafði sett stefnuna á leikana í Vancouver árið 2010 en lét staðar numið í íþróttinni vegna meiðsla áður en að leikunum kom. 

Dagný Linda vann 35 alþjóðleg mót á ferlinum og hafnaði í meðal 5 efstu á 87 alþjóðlegum mótum og má þar nefna þýska, norska og sænska meistaramótið. Keppti hún þrjátíu og einu sinni í heimsbikarnum. 

Dagný Linda var þrívegis valin Íþróttamaður Akureyrar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert