Corinna Schumacher, eiginkona ökuþórsins fyrrverandi Michaels Schumachers, sendi frá sér stutta yfirlýsingu eftir að fyrrverandi öryggisvörður fjölskyldunnar Markus Fritsche var dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi.
Fritsche reyndi að kúga fé út úr Schumacher-fjölskyldunni en hann hótaði því að birta sjúkrasögu ökuþórsins fyrrverandi á veraldarvefnum eftir að honum var sagt upp störfum af fjölskyldunni.
Vitorðsmenn Fritsche, þeir Yilmaz Tozturkan og sonur hans Daniel Lins, fengu einnig dóma en Yilmas setti sig í samband við Schumacher-fjölskylduna til að byrja með og reyndi að hafa af henni fé.
„Við ætlum að áfrýja þessum dómi því hann er allt of vægur,“ sagði Corinna í stuttri yfirlýsingu eftir að dómur féll í málinu.
„Ég er enn þá í áfalli eftir þennan mikla trúnaðarbrest sem átti sér stað. Hann á að fá refsingu sem fælir annað fólk frá því að gera slíkt hið sama,“ bætti Corinna við í yfirlýsingunni.
Þremenningarnir fóru fram á 15 milljónir evra í skiptum fyrir sjúkrasögu Schumachers en Yilmaz Tozturkan fékk þyngsta dóminn eða þriggja ára fangelsisdóm.