Fjölnir hafði betur gegn SR, 5:4, í vítakeppni í markaleik í efstu deild kvenna í íshokkí í kvöld. Var staðan eftir venjulegan leiktíma 4:4 og aðeins eitt mark skorað í vítakeppninni.
Fjölnir er í toppsætinu með 28 stig, SA í öðru sæti með 23 stig og SR rekur lestina með níu stig.
Arna Friðjónsdóttir kom SR yfir á 4. mínútu og Alice Gasperini bætti við öðru marki á 16. mínútu og var staðan eftir fyrstu lotu 2:0.
Laura-Ann Murphy minnkaði muninn í 2:1 í byrjun annarrar lotu en Alice gerði sitt annað mark og þriðja mark SR skömmu síðar. Eva Hlynsdóttir átti hins vegar lokaorðið í lotunni því hún minnkaði muninn í 3:2 á 34. mínútu.
Gunnborg Jóhannsdóttir kom SR í 4:2 á 42. mínútu en eftir það var komið að Fjölni. Elísa Dís Sigfinnsdóttir minnkaði muninn á 52. mínútu og Karen Þórisdóttir gerði fjórða mark Fjölnis örskömmu síðar og jafnaði í 4:4.
Ekkert var skorað í framlengingu og því réðust úrslitin í vítakeppni. Þar skoraði Sigrún Árnadóttir eina markið og tryggði Fjölni sigur.