Irma Gunnarsdóttir frá FH stóð uppi sem sigurvegari í þrístökki kvenna á Meistaramóti Íslands innanhúss í frjálsum íþróttum í Laugardalshöllinni í dag.
Irma stökk lengst 13,31 metra en hún á Íslandsmetið í greininni sem er 13,36 metrar.
Sara Kristín Lýðsdóttir frá FH endaði í öðru sæti en hún stökk 11,68 metra. Anna Metta Óskarsdóttir frá HSK/Selfoss stökk 11,33 metra og hafnaði í þriðja sæti.
Daníel Ingi Egilsson, Íslandsmethafinn í þrístökki karla, var ekki með í þrístökki í dag og bar því Guðjón Dunbar Diaquoi Þorsteinsson frá Fjölni sigur úr býtum en hann stökk 14,17 metra.
Egill Atlason Waagfjörð frá Kötlu stökk 12,66 metra og endaði í öðru sæti.
Erna Sóley Gunnarsdóttir frá ÍR kastaði lengst í kúluvarpi kvenna en hún kastaði 17,41 metra í dag.
Erna Sóley á Íslandsmetið í kúluvarpi innanhúss en það er 17,92 metrar frá 2023.
Hekla Magnúsdóttir frá ÍR kastaði 12,81 metra og endaði í öðru sæti. Katharina Ósk Emilsdóttir frá ÍR kastaði 12,32 metra og endaði í þriðja sæti.