Fjarlægja þurfti hægri fótinn á hinum umdeilda LaVar Ball vegna meiðsla eða veikinda en LaVar er þekktur fyrir að vera faðir Lonzo, LiAngelo og LaMelo Ball. Lonzo og LaMelo leika báðir í NBA-deildinni í körfubolta.
TMZ Sports greinir frá því að hægri fótur körfuboltapabbans hafi verið fjarlægður en ekki er vitað um nákvæma ástæðu þess.
LaVar var áberandi í fjölmiðlum vestanhafs þegar hann ræddi opinskátt um að synir hans gætu orðið bestu körfuboltamenn heims. Þá var hann sannfærður um að hann gæti sjálfur unnið Michael Jordan í einn á einn í körfubolta.
Hann stofnaði síðan skófyrirtækið Big Ballers Brand og spila synir hans í skóm frá vörumerkinu.