Leo Anthony Speight og Guðmundur Flóki Sigurjónsson unnu báðir til verðlauna um helgina á rúmlega 800 manna alþjóðlegu taekwondomóti sem fram fór í Slóveníu. Mótið gildir til stiga á heimslistanum.
Keppendur Íslands voru þrír að þessu sinni; þau Ingibjörg Erla Grétarsdóttir og Leo Anthony Speight sem kepptu í fullorðinsflokki og svo Guðmundur Flóki Sigurjónsson sem keppti í unglingaflokki. Þetta er fyrsta mótið sem liðið fer á undir stjórn nýs landsliðsþjálfara, Rich Fairhurst, sem kemur yfir frá breska landsliðinu.
Leo Anthony Speight sem keppir í -68 kg flokki tryggði sér brons í 25 manna flokki þar sem meðal annars kepptu tveir ólympíufarar. Leo sat hjá í fyrstu umferð en fór svo á móti keppanda frá Króatíu í 16 manna úrslitum sem Leo sigraði örugglega 2:0.
Hann keppti því næst við serbneskan keppanda í átta manna úrslitum sem hann vann 2:1. Í undanúrslitum fór hann svo á móti öðrum keppanda frá Serbíu en varð að játa sig sigraðan, 2:0. Sá keppandi stóð svo uppi sem sigurvegari flokksins. Leo hefur staðið á palli á fjórum af fimm seinustu alþjóðlegu stigamótum sem hann hefur keppt á sem er einstakt hjá íslenskum keppanda í taekwondo. Hann situr nú í 16. sæti heimslistans.
Guðmundur Flóki gerði sér lítið fyrir og vann til gullverðlauna á öðru mótinu í röð í E-1 hluta mótsins, að þessu sinni í -78 kg í unglingaflokki. Í átta manna úrslitum sigraði Guðmundur Flóki sterkan keppanda frá Ungverjalandi 2:0. Hann vann síðan Króata í undanúrslitum, 2:1, og Bosníumann í úrslitum, 2:0.