Aðdáendur Formúlu 1 bauluðu hressilega á ríkjandi heimsmeistarann Max Verstappen í O2-höllinni í Lundúnum þegar bílar og ökuþórar komandi tímabils voru kynntir til leiks.
Verstappen hefur unnið fjóra heimsmeistaratitla í röð og tvo þeirra eftir mikla baráttu við enska keppinauta sína, Lewis Hamilton og Lando Norris, og er sá hollenski ekki sá vinsælasti á Bretlandseyjum.
Jos Verstappen, faðir Max og fyrrverandi ökuþór, er allt annað en sáttur við móttökurnar sem sonurinn mátti þola.
„Það er ekki ásættanlegt að það sé baulað á hann. Það eru mikil vonbrigði. Það var baulað á hann fyrir framan 25.000 manns og það nennir því enginn.
Ef þetta verður haldið á Englandi aftur á næsta ári mun hann hugsa sig tvisvar um áður en hann mætir,“ sagði Verstappen eldri við RaceXpress.