Kennir kynlífi um fall á lyfjaprófi

Imogen Simmonds.
Imogen Simmonds. Ljósmynd/Instagram

Þríþrautarkonan Imogen Simmonds féll í desember síðastliðnum á lyfjaprófi þegar sterinn ligandrol greindist í blóði hennar. Simmonds heldur fram sakleysi sínu og segir kynlíf líklegustu ástæðuna fyrir því að efnið barst í blóð hennar.

Simmonds, sem er 31 árs og kemur frá Sviss, varð Evrópumeistari í Ironman árið 2019. Hún segist í yfirlýsingu á Instagram-aðgangi sínum vera miður sín og í áfalli yfir fallinu á lyfjaprófinu en telur sig vita ástæðuna.

Ligandrol eykur blóðflæði til vöðva og vöxt þeirra. Simmonds skrifar á Instagram að kærasti hennar hafi verið að innbyrða lyfið til þess að bæta líkamsbyggingu sína.

Hársýni reyndist neikvætt

„Ég og kærastinn minn stunduðum kynlíf bæði sama dag og daginn fyrir lyfjaprófið sem gaf jákvæða niðurstöðu þann 8. desember. Lögfræðiteymi mitt og ég höfum komist að þeirri niðurstöðu að lyfið hafi borist í blóðrás mína við skiptingu líkamsvessa,“ skrifaði hún.

Bætti Simmonds því við að hársýni hafi leitt í ljós að hún hafi aldrei innbyrt ligandrol en að niðurstaða úr hársýni kærasta hennar hafi reynst jákvæð.

Simmonds hefur verið úrskurðuð í keppnisbann til bráðabirgða á meðan málið er rannsakað frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka