Langstökkvarinn Daníel Ingi Egilsson ríður á vaðið af íslensku keppendunum á Evrópumótinu innanhúss í frjálsum íþróttum sem fram fer í Apeldoorn í Hollandi.
Daníel Ingi, sem er 24 ára gamall, keppir í forkeppni í langstökki í kvöld en úrslitin fara fram á morgun, föstudag.
Langstökkvarinn flutti til Svíþjóðar í september á síðasta ári til þess að einbeita sér alfarið að íþróttinni en þar hefur hann æft undir handleiðslu Yannick Tregaro.
„Ég er þokkalega vel stemmdur fyrir Evrópumótinu,“ sagði Daníel Ingi í samtali við Morgunblaðið.
„Tímabilið hefur ekki alveg þróast eins og ég hafði óskað mér. Þetta hefur verið mikið upp og niður en mér hefur gengið ágætlega á þessum síðustu mótum í aðdraganda EM. Þetta er í raun síðasta mót tímabilsins og markmiðið er að ljúka þessu á góðum nótum,“ sagði Daníel.
„Þetta hafa klárlega verið miklar breytingar á stuttum tíma. Ég hafði búið heima hjá foreldrum mínum allt þangað til ég flutti út. Það hefur klárlega tekið á að þurfa að fóta sig í nýju landi, með nýju tungumáli þar sem þú þekkir fáa, og þurfa að sjá algjörlega um sig sjálfur. Ég fann það klárlega að þessar breytingar höfðu áhrif á frammistöðuna mína og þjálfunarlega séð voru breytingarnar líka miklar.
Ég byrjaði að æfa hjá nýjum þjálfara, með nýjar aðferðir sem ég var ekki vanur. Það tók líka tíma að venjast því. Þetta var erfiðara en ég átti von á ef ég á að vera alveg hreinskilinn með það og þetta er heljarinnar hark að standa í þessu. Ég sé samt ekki eftir neinu. Mér hefur gengið ágætlega að aðlagast lífinu í Gautaborg og mér líður vel í dag.“
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag eða með því að smella hér.