KA tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum bikarkeppni kvenna í blaki með sigri á Aftureldingu, 3:1, í fyrri undanúrslitaleiknum í Digranesi í Kópavogi.
Er þar með ljóst að Afturelding ver ekki bikartitilinn en Afturelding vann KA í úrslitum á síðasta ári. Nú mætir KA annaðhvort HK eða Álftanesi í úrslitum.
Afturelding byrjaði betur og vann fyrstu hrinuna 25:21. Eftir það var komið að KA því Akureyrarliðið vann næstu þrjár hrinur, 25:21, 26:24 og 28:26.
Fóru tvær síðustu hrinurnar í upphækkun, þar sem munurinn var minni en tvö stig þegar fyrra liðið komst í 25 stig, og því um spennandi leik að ræða.