Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Fríða Sigurðardóttir hefur leikið flesta A-landsleiki fyrir Íslands hönd í blaki eða 113. Er hún lang leikjahæst hjá kvennalandsliðinu en næst kemur Jóna Guðbjörg Vigfúsdóttir með 84 landsleiki samkvæmt lista Blaksambandsins.
Einungis þrír íslenskir blakspilarar hafa náð 100 A-landsleikjum en hjá körlunum eru það Emil Gunnarsson með 106 leiki og Vignir Hlöðversson með 101 landsleik.
Fríða varð leikjahæst þegar hún lék 107. landsleikinn í sigri gegn Möltu á Smáþjóðaleikunum í San Marínó snemma sumars 2017. Tengingarnar eru oft miklar í íslensku íþróttalífi en þegar Fríða fór fram úr Emil í leikjafjölda var hann á staðnum sem aðstoðarþjálfari landsliðsins en þjálfaði hana auk þess hjá HK.
Síðar um sumarið 2017 lét Fríða staðar numið með landsliðinu og lék síðustu landsleikina á EM smáþjóða. Skildi hún við landsliðið á góðum nótum því Ísland vann keppnina.
Fyrsta landsleikinn lék hún gegn Liechtenstein um páskana árið 1998. Þá einungis 18 ára.
„Ég hef að ég held farið á flest mót sem landsliðið hefur tekið þátt í síðan þá. Ég missti einu sinni af Smáþjóðaleikum vegna þess að ég var nýbúin í axlaruppskurði og missti einnig af einu æfingamóti. Leikarnir í San Marínó voru níundu Smáþjóðaleikarnir mínir,“ rifjaði Fríða upp í viðtali við Morgunblaðið hinn 23. júní 2017 en hún var lengi landsliðsfyrirliði.
Á meðfylgjandi mynd má sjá skell hjá Fríðu í leik á móti Kýpur á Smáþjóðaleikunum á Möltu árið 2003 eða fyrir tuttugu og tveimur árum síðan. Myndina tók Brynjar Gauti sem myndaði íslenska keppendur á leikunum fyrir Morgunblaðið og mbl.is en um fjölgreinamót er að ræða hjá þjóðum með 1 milljón íbúa og minna.
Fríðu var heiður sýndur þegar hún lék fyrir Savannah College of Art and Design háskólann í Bandaríkjunum en Savannah er í Georgíuríki. Árið 2006 var hún valin besti leikmaðurinn í riðlinum sem liðið lék í, Florida Sun Conference. Lék liðið í framhaldinu í úrslitakeppni NAIA deildarinnar.
Að keppnistímabilinu loknu var Fríða valin í úrvalslið númer tvö eða NAIA Volleyball second All-America team. Í NAIA eru 250 háskólar frá Bandaríkjunum og Kanada og um 77 þúsund keppa í íþróttum innan NAIA.
Þegar tölur voru skoðaðar voru einungis 20 leikmenn í allri deildinni sem vörðu fleiri skot í hávörn á tímabilinu en Íslendingurinn.
Í dag verður leikið til úrslita í bikarkeppni Blaksambandsins í Digranesi í Kópavogi. Þar mætast KA og HK í kvennaflokki og KA og Þróttur R. í karlaflokki.