Skíðamaðurinn Jón Erik Sigurðsson hafnaði í 22. sæti í svigi á heimsmeistaramóti unglinga í Tarvisio á Ítalíu á fimmtudaginn.
Jón Erik hefur dvalið við æfingar á Ítalíu í vetur en hann var við æfingar í Val Senales í ítölsku ölpunum í október á síðasta ári þegar Matilde Lorenzi, efnileg skíðakona frá Ítalíu, lést eftir slys í brautinni.
Jón Erik ræddi upplifun sína af slysinu við mbl.is á sínum tíma og viðurkennir að hann sé ekki búinn að jafna sig á því.
„Þetta situr ennþá í manni og stundum kemur upp óþarfa hræðslutilfinning sem maður hafði ekki upplifað áður,“ sagði Jón Erik í samtali við mbl.is.
„Maður finnur ennþá fyrir þessu en ég reyni að láta þetta ekki skemma fyrir mér. Ég er klárlega varari um mig í stórsviginu og ég er hræddari.
Maður reynir samt að hugsa sem minnst um þetta þegar maður er í keppni,“ bætti Jón Erik við.
Viðtal við Jón Erik má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.