SR gerði góða ferð á Akureyri og lagði þar SA í bæði karla- og kvennaflokki í lokaumferð Íslandsmóts beggja í íshokkí í gær.
Karlalið SR sigraði með gullmarki, 7:6, í framlengingu en liðið var undir 2:5 í öðrum leikhluta. Kári Arnarsson, fyrirliði SR, var með þrennu og tvær stoðsendingar að auki.
SA tók við deildarmeistaratitlinum að leik loknum. Liðin mætast svo í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn sem hefst á Akureyri laugardaginn 29. mars með fyrsta leik. Leikur tvö er í Skautahöllinni í Laugardal þriðjudaginn 1. apríl
Kvennalið SR sigraði svo SA 3:2 í seinni leik dagsins fyrir norðan. SR hefur verið á mikilli siglingu seinnihluta tímabilsins en náði þó ekki hinum liðunum tveimur í deildinni.
Fjölnir varð deildarmeistari kvenna og mætir SA í úrslitum sem hefjast í Egilshöll núna á þriðjudaginn.