Þær ungu skila miklu og gera sitt

Leikmenn SA fagna.
Leikmenn SA fagna. Ljósmynd/Egill Bjarni

Amanda Ýr Bjarnadóttir, fyrirliði SA, mætti í stutt spjall við mbl.is eftir sigur SA á Fjölni, 2:1, í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í íshokkí á Akureyri í kvöld.

Leikurinn var annar leikur liðanna í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn en Fjölnir vann fyrsta leikinn 5:0. Þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari, staðan er 1:1 og þriðji leikur í Egilshöllinni á laugardaginn. 

„Við mættum bara tilbúnar í þennan leik. Það er aðal munurinn frá því í síðasta leik. Við byrjuðum hann illa og vorum ekki mættar. Það skipti engu máli hvernig sá leikur fór, það var bara eitt tap. Við þurftum bara að klára þennan leik í staðinn. Ég er mjög bjartsýn á framhaldið eftir frammistöðu okkar í kvöld,“ sagði Amanda kotroskin.

Amanda er aðeins átján ára gömul en er þó fyrirliði SA, enda með elstu leikmönnum liðsins. Leikmenn eru flestir mjög ungir og margir enn í grunnskóla. Yngst er Guðrún Ásta Valentine en hún er í 7. bekk. Svo eru aðrir komnir um og yfir fertugt. Amanda var spurð um þessa samsetningu liðsins.

„Ég tel að Fjölnisliðið sé með fleiri leikmenn á besta aldri og þar eru margir reynslumiklir leikmenn. Okkar ungu leikmenn eru mjög sprækir og eru að skila miklu og gera sitt. Nokkrir þeirra eru komnir með ágætis reynslu nú þegar.

Við höldum bara svona áfram og munum standa okkur vel í þeim leikjum sem eftir eru“ sagði fyrirliðinn sposkur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert