Berglind Leifsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Fjölni gegn sínum gömlu félögum í SA í þriðja leik úrslitaeinvígis Íslandsmóts kvenna í íshokkí í Egilshöll í kvöld. Leiknum lauk með sigri Fjölnis, 4:1, sem er einum leik frá titlinum.
„Þetta er svo góð tilfinning. Við áttum ekki okkar besta leik fyrir norðan en komum mjög sterkar til baka og það var svo gaman að sjá liðið koma til baka og taka skrefið aftur upp, og einu skrefi nær titlinum.“
Fjölnir vann fyrsta leik liðanna í Egilshöll mjög sannfærandi en SA svaraði með sigri í framlengdum leik fyrir norðan þar sem allt var í járnum. Hingað til hafa því allir leikirnir unnist á heimavelli.
„Ferðalagið og stressið sem fylgir úrslitakeppninni spilar inn í. Þær líka mættu með allt annað lið í leik tvö en þær gerðu í fyrsta leiknum. Þær pressuðu miklu meira á okkur og voru bara allt annað lið. Það spilar líka mikið inn í.“
Berglind er ekki sú eina í liði Fjölnis sem er fyrrverandi leikmaður SA en þær fóru illa með sína gömlu félaga í kvöld.
„Maður spilar bara fyrir sitt lið og vill alltaf vinna. Maður leggur mikið á sig og reynir að vera ekkert of mikið að spá í að þetta séu einhverjar vinkonur eða gamlir liðsfélagar sem maður er að spila við.“
Þrátt fyrir að þekkjast vel var þó nokkur hiti í leiknum.
„Maður vill alls ekki vera leiðinlegur við þessar stelpur, maður þarf að passa sig. Maður vonar bara að enginn taki þessu persónulega en þetta er náttúrlega íshokkí, það er hörð íþrótt.“
Eins og áður kom fram er Fjölnir einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum en næsti leikur er á Akureyri á þriðjudaginn. Markmiðið þar er að sjálfsögðu að tryggja sér titilinn.
„Við ætlum að klára þetta á þriðjudaginn. Það væri vissulega miklu skemmtilegra að vinna þetta heima en svona er þetta bara.“