Fjölniskonur eru einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum í úrvalsdeild kvenna í íshokki en þær lögðu SA í þriðja leik úrslitaeinvígisins í Egilshöllinni í kvöld, 4:1. Staðan í einvíginu er 2:1, Fjölni í vil og getur liðið tryggt sér titilinn með sigri á Akureyri í fjórða leik liðanna á þriðjudaginn.
Ef frá eru taldar fyrstu tæpu fimm mínútur fyrsta leikhlutans voru yfirburðir heimakvenna miklir. Gestunum gekk mjög illa að halda í pökkinn og pressa Fjölnis var frábær. SA-konur vörðust þó öllu því sem að marki kom til að byrja með en eftir um 12 mínútna leik fékk Aðalheiður Ragnarsdóttir tveggja mínútna brottvísun og komst Fjölnir því í yfirtölu.
Þegar um mínúta var eftir af brottvísun Aðalheiðar brutu Fjölniskonur ísinn. Hilma Bóel Bergsdóttir, fyrrverandi leikmaður SA, stýrði pekkinum þá í netið af stuttu færi eftir skot eða sendingu utan af velli.
Við það var eins og flóðgáttir opnuðust. Einungis þremur mínútum síðar skoraði Fjölnir annað markið og var það samvinna tveggja annarra fyrrverandi leikmanna SA. Teresa Snorradóttir skautaði þá með pökkinn fyrir aftan mark gestanna en einhver misskilningur í vörninni varð til þess að hún fékk allan tímann í heiminum til að velja sendingu. Hún renndi pekkinum þvert fyrir markið á Berglindi Leifsdóttur sem stýrði honum í netið af stuttu færi.
Það var svo tæpri mínútu síðar sem Fjölniskonur skoruðu þriðja markið. Pökkurinn datt þá fyrir Elísu Sigfinnsdóttur eftir smá atgang í teig SA og hún smellti honum upp í hornið þar sem Shawlee Gaudreault, markvörður SA, kom engum vörnum við.
Það var allt annað að sjá gestina í öðrum leikhlutanum og sérstaklega framan af. Liðið kom út af miklum krafti og strax á 22. mínútu minnkaði Magdalena Sulova muninn þegar hún setti pökkinn í netið af stuttu færi eftir frábæran undirbúning Silvíu Björgvinsdóttur.
SA fékk nokkur kjörin færi til að minnka muninn enn frekar í kjölfarið en þar ber kannski helst að nefna tvö færi sem Herborg Geirsdóttir fékk, en hún komst í tvígang ein gegn Karítas Halldórsdóttur markverði Fjölnis en tókst ekki að skora.
Síðustu mínútur leikhlutans voru það svo heimakonur sem áttu fleiri marktilraunir en Shawlee Gaudreault varði allt sem á mark hennar kom. Heimakonur leiddu því með tveimur mörkum fyrir þriðja og síðasta leikhlutann.
Þriðji leikhlutinn var tíðindalítill og verður að gefa Fjölnisstelpum mikið hrós hvernig þær lokuðu leiknum. Fjölnir fékk tveggja mínútna brottvísun snemma í leikhlutanum en SA náði ekki skoti að marki, manni fleiri. Sigrún Árnadóttir fékk hins vegar algjört dauðafæri fyrir Fjölni á meðan liðið var manni færri en Gaudreault varði frábærlega frá henni.
Eftir því sem leið á leikhlutann fjaraði von gestanna út varð með tímanum alveg ljóst að endurkoman væri ekki á leiðinni. Þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka var það svo Berglind Leifsdóttir sem gerði endanlega út um leikinn með öðru marki sínu og fjórða marki Fjölnis. Berglind fékk pökkinn þá með bakið í markið, sneri og smurði hann glæsilega upp í hornið. Reyndist þetta síðasta mark leiksins og lokatölur því 4:1, Fjölni í vil, sem eru í kjörstöðu í einvíginu.
Það er því ljóst að með sigri í fjórða leik liðanna á Akureyri á þriðjudaginn verður Fjölnir Íslandsmeistari í íshokkí. SA þarf hins vegar að vinna á heimavelli til að tryggja sér oddaleik í Egilshöll.