Steinunn Sigurgeirsdóttir varð Íslandsmeistari með íshokkíliði Fjölnis í kvöld, annað árið í röð. Það eru 24 ár frá því að keppt var á Íslandsmóti kvenna í fyrsta skipti og var Steinunn þá líka í sigurliðinu.
Þótti tilhlýðilegt að fá kempuna í viðtal eftir leik. Varð viðtalið ansi slitrótt þar sem Íslandsmeistarinn nýkrýndi þurfti að sinna myndatökum inn á milli.
„Ég er ekki alveg með það á hreinu hvað titlarnir eru margir hjá mér. Það eru komnir tveir núna með Fjölni og svo voru nokkrir með SA í byrjun ferilsins.“
Það eru líka komin ótal einvígin þar sem þú varst í silfurliðinu. Það hlýtur að vera sætt að landa þessum titlum núna.
„Vissulega. Nú er þetta farið að tikka inn. Núna erum við bara með ótrúlega margar stelpur og ótrúlega flottar, fullt af landsliðskonum og okkur hefur fjölgað töluvert í Fjölni. Það þarf að mæta með flott lið til að klára svona einvígi.“
Já þetta er flottur og fjölmennur hópur. Það einkenndi stundum liðin sem þú spilaðir með hve hóparnir voru fámennir og það telur í úrslitaeinvígjum þar sem stutt er á milli leikja. Það munar hreinlega um hvern leikmann. En hver er megin munurinn á liðum Fjölnis og SA í ár?
„Þetta er svona svipað og í fyrra. Við erum með rosalega góðan þjálfara, mikið af landsliðskonum en einnig ungar stelpur, sem eru að koma upp. Við vorum með gott plan. Við settum okkur markmið, lítil markmið og svo stærri markmið. Okkur tókst vel að vinna eftir þeim og vorum skipulagðar.“
Þið unnuð deildarkeppnina nokkuð örugglega og það hefur verið stígandi hjá ykkur alla leiktíðina.
„Við höfum verið með besta liðið þetta leiktímabil. Við unnum deildina með töluverðum mun og erum langbestar í ár. Ég held að það sé óhætt að segja það.“
Og hvað ætlar þú að gera á næsta ári?
„Ég bara held áfram. Á meðan ég fæ að vera inná svellinu þá er ég með.“ Steinunn er kominn eitthvað yfir fertugt en á greinilega nóg eftir. „Ég þarf líka að sigra Jónínu. Ég þarf að vera lengur en hún í þessu.“ Þar á Steinunn við Jónínu Guðbjartsdóttur, jafnaldra sinn í liði SA.
Er það aðal markmiðið?
„Nei, nei. Þetta var bara grín. En það er gaman og ég get þetta enn þá. Skrokkurinn getur þetta og þá er ég með“ sagði Steinunn að lokum.