Neita sök í andláti fatlaðs íþróttamanns

Abdullah Hayayei lést árið 2017.
Abdullah Hayayei lést árið 2017. Ljósmynd/Paralympics

Frjálsíþróttasamband Bretlands, UKA, og fyrrverandi formaður sambandsins, Keith Davies, lýsa yfir sakleysi sínu vegna ákæru um manndráp vegna andláts Abdullah Hayayei, fatlaðs afreksíþróttamanns frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Hayayei lést þann 11. júlí 2017, 36 ára að aldri, á æfingu í Newham íþróttamiðstöðinni í Lundúnum eftir að járnbúr féll ofan á hann er Hayayei undirbjó sig fyrir þátttöku á HM í frjálsíþróttum fatlaðra.

Hayayei tók þátt á Paralympics í Ríó árið 2016 og hugðist keppa í kúluvarpi, kringlukasti og spjótkasti á HM 2017 í frjálsíþróttum fatlaðra.

Fórst fyrir að festa járnbúrið

Samkvæmt ákærunni fórst fyrir að festa járnbúr sem Hayayei var að nota við æfingar í kúluvarpi með viðunandi hætti þar sem grunnuppsetning á búrinu var ekki í lagi.

UKA og Davies voru bæði ákærð fyrir manndráp. UKA var þá ákært fyrir að hafa mistekist að tryggja öryggi viðstaddra sem ekki störfuðu í íþróttamiðstöðinni og Davies var ákærður fyrir að hafa ekki tryggt öryggi á staðnum.

UKA og Davies hafa neitað sök í öllum ákæruliðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert