„Nú verður bara ennþá skemmtilegra hjá okkur“

Kolbrún María Garðarsdóttir tekur við Íslandsbikarnum í kvöld.
Kolbrún María Garðarsdóttir tekur við Íslandsbikarnum í kvöld. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Íslandsbikarinn í íshokkí kvenna fór á loft í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Fjölnir vann SA 2:1 í fjórða leik úrslitakeppninnar og kláraði þar með einvígið 3:1.

Fyrirliði Fjölnis er Kolbrún María Garðarsdóttir en hún er uppalin á Akureyri. Hún lék á als oddi eftir leik og eftir fögnuð Fjölniskvenna eftir að bikarinn var hafinn á loft.

Kolbrún. Þetta var eiginlega aldrei spurning í ykkar huga.

„Þetta var hörkueinvígi og leikirnir hérna á Akureyri voru báðir mjög erfiðir. SA-stelpurnar komu mjög grimmar inn í leikina hér en við vorum 100% betra liðið í okkar heimaleikjum. Oft á tíðum var þetta bara spurning um smá heppni. Þær hefðu vel getað sett fleiri mörk en við líka.“

Eina sem skiptir máli

Já þetta virtist snúast um að gera sér mat úr því sem bauðst. Pökkurinn var mikið laus eftir klafs og baráttu. Mörkin í kvöld komu öll eftir smá mistök, sem andstæðingurinn náði að nýta sér.

„Ég veit vel að við getum gert betur en við gerðum í dag. Það eina sem skiptir máli er að við komum hingað og kláruðum þetta. Ég er ógeðslega stolt af þessu liði. Við áttum þetta bara skilið.“

Lið Fjölnis varð deildarmeistari fyrr á tímabilinu og er að vinna báða titlana í fyrsta skiptið.

„Það var markmiðið í ár að taka báða titlana. Við settum okkur eitt og eitt markmið í einu og fylgdum gildunum okkar. Við vorum bara með plan.“

Liðið virkaði fullkomlega

Þetta þótti blaðamanni skemmtilegt að heyra þar sem annar leikmaður Fjölnis, Steinunn Sigurgeirsdóttir, sagði líka í viðtali við mbl.is að liðið hafi verið með plan. Leituðu Fjölniskonur kannski í smiðju Samfylkingarinnar til að tryggja sér sigur?

Nú hló Kolbrún María dátt og ítrekaði orð sín. „Við vorum með plan, fylgdum því og það virkaði. Það gaf okkur aukið sjálfstraust að sjá að þetta var að virka fyrir okkur. Við treystum algjörlega á liðsfélagana. Hver sá bara um sína vinnu og þá virkaði liðið fullkomlega.“

Þá er þessum slag lokið og þá er væntanlega landsliðsverkefni framundan.

„Við erum að fara til Póllands í ár. Það bíður næsta verkefni. Reyndar þurfum við að fagna þessum titli fyrst og það verður gert á laugardaginn. Við vorum alltaf búin að plana að hafa skemmtun á laugardaginn óháð því hvernig þetta einvígi færi. Nú verður bara ennþá skemmtilegra hjá okkur á laugardaginn fyrst við unnum. Nú er bara að njóta uppskeru tímabilsins. Við eigum það alveg inni hver og ein okkar“ sagði Kolbrún María glaðbeitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert