Kristrún Ingunn Sveinsdóttir hefur lokið keppni á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum á Málaga á Spáni, þar sem hún sló eigið Íslandsmet og hafnaði í áttunda sæti af 15 keppendum í sínum flokki.
Kristrún Ingunn, sem keppir í -52 kg flokki, fékk allar sínar lyftur gildar í hnébeygju þar sem hún lyfti mest 132,5 kg.
Í bekkpressu kláraði hún 72,5 kg í fyrstu lyftu en náði ekki að lyfta 77,5 kg í annarri og þriðju tilraun.
Í réttstöðulyftu gerði Kristrún Ingunn sér svo lítið fyrir og bætti sitt eigið Íslandsmet með 152,5 kg lyftu. Samanlagt lyfti hún því 357,5 kg sem skilaði henni að lokum áttunda sæti.