Willum Þór Þórsson býður sig fram í embætti forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
Þetta tilkynnti hann á Facebook fyrir stundu.
Lárus Blöndal lætur af störfum sem forseti ÍSÍ á íþróttaþingi sambandsins sem er framundan en það verður haldið í Reykjavík 16. og 17. maí.
Willum segir í færslunni á Facebook:
Willum, sem varð 62 ára á mánudaginn, á langan feril að baki í íþróttahreyfingunni en hann lék knattspyrnu, handknattleik og körfuknattleik á yngri árum og átti síðan farsælan feril í knattspyrnunni, lengi vel sem leikmaður, og síðan sem þjálfari.
Hann sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn frá 2013 til 2024 og var heilbrigðisráðherra síðustu þrjú árin en féll af þingi í alþingiskosningunum í desember.
Willum er uppalinn KR-ingur og lék fyrir félagið í áðurnefndum þremur íþróttagreinum. Hann lék með meistaraflokki KR frá 1981 til 1989 og síðan með Breiðabliki frá 1990 til 1995.
Willum gekk til liðs við Þrótt í Reykjavík árið 1996 og þjálfaði síðan liðið 1997 til 1999, þar sem hann kom félaginu upp í úrvalsdeildina á fyrsta ári.
Hann þjálfaði síðan lið Hauka árin 2000 og 2001 og fór með liðið upp um tvær deildir á jafnmörgum árum.
Willum var ráðinn þjálfari KR fyrir tímabilið 2002 og stýrði liðinu í þrjú ár en KR varð Íslandsmeistari árin 2002 og 2003 undir hans stjórn. Þaðan fór hann til Vals, þjálfaði Hlíðarendaliðið frá 2005 til 2009 og vann með því bikarkeppnina árið 2005 og Íslandsmeistaratitilinn árið 2009.
Willum þjálfaði síðan Keflavík árin 2010 og 2011 og Leikni í Reykjavík árið 2012 en sneri aftur í þjálfun á miðju tímabili 2016 og stýrði liði KR-inga á ný í hálft annað ár.