Kirsty Coventry var í dag kjörin forseti Alþjóða ólympíunefndarinnar, IOC, og er fyrsta konan til að gegna embættinu.
Coventry er 41 árs gömul og kemur frá Afríkuríkinu Simbabve. Hún var sundkona sem keppti fyrir hönd þjóðar sinnar á fimm Ólympíuleikum frá 2000 til 2016.
Þar vann hún tvenn gullverðlaun í 200 metra baksundi árin 2004 og 2008, fern silfurverðlaun og ein bronsverðlaun.
Coventry vann jafnframt til sjö gullverðlauna á heimsmeistaramótum, fimm silfurverðlauna og einna bronsverðlauna.
Hún tók sæti í framkvæmdastjórn IOC árið 2023 og í haust var tilkynnt að hún væri ein af sjö sem kæmu til greina sem næsti forseti.
Auk þess að verða fyrsta konan til að gegna embættinu er hún fyrsti Afríkubúinn sem tekur það að sér.