Hamilton á ráspól í Kína

Lewis Hamilton kátur eftir tímatökuna í Sjanghaí í dag.
Lewis Hamilton kátur eftir tímatökuna í Sjanghaí í dag. AFP/Greg Baker

Lewis Hamilton verður á ráspól fyrir Ferrari í sprettkeppninni í kínverska kappakstrinum í Formúlu 1 um helgina.

Hamilton, sem er sjöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1, sagði við fréttamenn eftir að hann kom fyrstur í mark í tímatöku í dag að hann væri í áfalli yfir því hversu hratt Ferrari-bifreiðin hafi farið.

Hamilton hafnaði í níunda sæti í ástralska kappakstrinum um síðustu helgi, sem var hans fyrsti fyrir hönd Ferrari, og bjóst því ekki við jafn góðu gengi og í dag.

„Mér er smá brugðið yfir þessu. Ég vissi ekki hvenær við gætum komist í þessa stöðu og miðað við hvernig síðasta helgi fór var byrjunin á þessari viku erfið.

Ég kom hingað uppfullur af ákefð og vildi koma bílnum í sem besta stöðu fyrir helgina. Ég byrjaði um leið með betri tilfinningu fyrir bílnum og ég trúi því ekki að við séum fremstir. Ég er í svolitlu áfalli,“ sagði Hamilton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert