Ætla að verða Íslands- og Norðurlandameistarar

Kvennalið Stjörnunnar í hópfimleikum.
Kvennalið Stjörnunnar í hópfimleikum. Ljósmynd/Stjarnan

Helena Clausen Heiðmundsdóttir og liðsfélagar hennar í kvennaliði Stjörnunnar í hópfimleikum tryggðu sér bikarmeistaratitilinn í gær og sæti á Norðurlandamótinu sem fer fram í Finnlandi í nóvember á þessu ári.

„Þetta gekk mjög vel hjá okkur þótt við séum margar að glíma við meiðsli. Þó það vantaði þrjár lykilmanneskjur í liðið dag og þetta var smá púsluspil þá gekk þetta mjög vel,“ sagði Helena í viðtali við mbl.is eftir mótið.

Liðið fékk 52,5 í lokaeinkunn og fékk 16,6 á fiber þrátt fyrir að missa liðsumferðina.

Frábær einkunn á dýnu þrátt fyrir mistök hjá fremstu manneskju, hvernig komuð þið svona sterkar til baka eftir það?

 „Þegar við erum að hlaupa til baka þá þurfum við bara að núllstilla okkur og halda áfram, þó að við sjáum að eitthvað mistókst, þá þurfum við að rífa upp og gera allt sem við getum til að klára áhaldið.“

Stjarnan fékk hæstu einkunn í dansi í dag, 19,250 sem er 1,35 meira en Gerpla fékk sem var í öðru sæti.

 „Við erum búnar að vera ótrúlega duglegar að hreinsa dansinn og bæta smáatriði og gera hann eins flottan og við getum. Auðvitað koma hnökrar hér og þar en þá gerum við bara betur fyrir næsta mót.“

Aðeins þrjár vikur eru í næsta mót sem er Íslandsmót.

„Markmiðið fyrir Íslandsmót er auðvitað að verða Íslandsmeistarar. Við ætlum að hreinsa dansinn, koma meiri erfiðleika í stökkin og hreinsa þau.“

Eins og Hildur sagði þá vantaði þrjá lykilleikmenn í liðið í dag. 

„Það er ein sem getur mögulega keppt á Íslandsmótinu en hinar tvær eru að glíma við mjög stór og alvarleg meiðsli svo við bíðum spenntar að fá þær inn fyrir Norðurlandamótið.“

Með bikarmeistaratitlinum fylgdi sæti á Norðurlandamótið í Finnlandi í nóvember.

„Markmiðið er auðvitað að verða Norðurlandameistarar. Það hefur verið markið hjá okkur síðan eftir Evrópumótið,“ sagði Helena sem var hluti af íslenska landsliðinu sem vann Evrópumeistaratitilinn á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert