Kristinn Albertsson, nýkjörinn formaður Körfuknattleikssambands Íslands, hefur vakið athygli fyrir ummæli sem hann lét falla á ársþingi KKÍ á dögunum.
Þar notaði Kristinn tækifærið til þess að upphefja körfuknattleik og setja handknattleik niður í leiðinni.
„Ég ætlaði að fá að klára smávegis. Það snýr að því þegar ég kom eftir langa veru niðri í íþróttamiðstöð í Laugardal og skýst inn á skrifstofu KKÍ. Þá rifjaðist upp fyrir mér saga sem var frá því að ég var framkvæmdastjóri KKÍ.
Eins og það er núna eru öll sérsamböndin með skrifstofur í Laugardal. Starfsmenn sambandanna hittust reglulega í hádegismat í matsal ÍSÍ. Þið þekkið það þegar kollegar eða samkeppnisaðilar hittast þá er verið að gorta sig af hinu og þessu.
Handboltinn var sérstaklega svona „pain in the neck“. Af hverju? Jú, jú þeir voru endalaust með kassann úti og talandi hvað við hin í fótboltanum, körfunni eða blakinu eða hvað það var væru búin að fara á mörg stórmót.
Þarna höfðum við ekki farið á neina EuroBasket. Knattspyrnan hafði ekki farið á neina Evrópukeppni eða heimsmeistarakeppni. Þannig að þau voru endalaust með kassann úti,“ sagði Kristinn í lok þakkarræðu sinnar.
Hann hélt áfram:
„Svo tek ég eftir því einn daginn að það kemur einhver vinsældakosning á heimsvísu. Það sem gerðist, en ég held að það hafi ekki gerst eftir það, var að körfubolti var númer eitt. Vinsælasta íþrótt í heiminum. Fótbolti var númer tvö og blak númer þrjú.
Ég man ekki alveg tölurnar þannig að ekki hafa þetta eftir mér en þetta var sirka svona. Númer 186 var handbolti. Númer 185 var indverskt rottuhlaup. Og þegar manni var einhvern tímann ofboðið af kjaftbrúkinu hjá handboltamönnum þá skellti maður þessu á borðið og það var ekki rætt meira.
Að þessu sögðu þykir mér afar vænt um handbolta. Ég hlakka alltaf til að horfa á handbolta í janúar í skammdeginu en mig langaði að deila þessari sögu með ykkur.“