Úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí er í uppnámi og hefur verið frestað um eina viku til að byrja með í kjölfar kærumáls en samkvæmt því ætti Fjölnir að fara í úrslitaeinvígið við Skautafélag Akureyrar en ekki Skautafélag Reykjavíkur, SR.
Á laugardag féll dómur hjá dómstól ÍSÍ, sem er dómstóll íshokkíhreyfingarinnar en Fjölnir kærði leik milli Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur vegna ólöglegs leikmanns. Akureyri.net greindi fyrst frá málinu í gær.
Dómstóllinn tók rök Fjölnis til greina, SR hafði unnið leikinn 3:0 en niðurstaða dómstólsins var sú að SR teldist hafa unnið leikinn 10:0.
Fyrir vikið náði Fjölnir liði SR að stigum í öðru og þriðja sæti, en bæði eru eftir dóminn með 28 stig og markatala orðin Fjölni í hag þannig að samkvæmt því verður það Fjölnir sem fer í úrslitaeinvígið gegn SA en ekki SR.
Úrslitakeppnin átti að hefjast næsta laugardag, 29. mars, en stjórn ÍHÍ ákvað í gær að fresta fyrsta leik hennar um eina viku, eða til laugardagsins 5. apríl.
SR sendi í gærkvöld frá sér yfirlýsingu vegna málsins og þar kom fram að félagið hefði viku til að áfrýja málinu til áfrýjunardómstóls ÍSÍ. Í yfirlýsingunni segir að félagið muni jafnframt kæra Fjölni fyrir ítrekaða notkun ólöglegra leikmanna í vetur og þetta muni taka sinn tíma í dómstólakerfi ÍSÍ og mögulega áfrýjunardómstóli.
Í niðurlagi yfirlýsingarinnar segir:
SR skorar hér með á Fjölni að sætta sig við það að hafa tapað baráttunni inni á ísnum og gera frekar heiðarlega tilraun til að komast í úrslit á næsta ári. Eyðileggja ekki úrslitakeppnina fyrir íslenskum íshokkíaðdáendum eða jafnvel koma í veg fyrir að það verði úrslitakeppni yfir höfuð í ár.