Ætlar að læra þjóðsönginn fyrir stóru stundina

Lucie Stefaniková byrjaði að lyfta lóðum í ræktinni árið 2018 …
Lucie Stefaniková byrjaði að lyfta lóðum í ræktinni árið 2018 áður en hún byrjaði í kraftlyftingum. Morgunblaðið/Óttar Geirsson

Lucie Stefaniková náði frábærum árangri á Evrópumótinu í klassískum kraftlyftingum sem fram fór á Málaga á Spáni um nýliðna helgi.

Lucie, sem verður þrítug á árinu, keppti í -76 kg flokki og fékk gullverðlaun í hnébeygju þegar hún lyfti 211 kg sem er jafnframt Evrópumet. Í bekkpressunni lyfti hún 120 kg sem er hennar besti árangur í greininni. Í réttstöðulyftunni lyfti hún svo 232,5 kg og hafnaði að endingu í þriðja sæti í samanlögðum árangri.

„Ég er mjög ánægð, og líka þreytt, enda nýkomin heim til Íslands eftir langt ferðalag sem tók meira og minna alla nóttina,“ sagði Lucie í samtali við Morgunblaðið.

„Markmiðið fyrir Evrópumótið var að enda á verðlaunapalli og það gekk. Ég var að vonast eftir aðeins betri tölum í hnébeygjunni, sem er mín sterkasta grein, en ég ætlaði mér að setja nýtt Evrópumet sem tókst loksins eftir langa bið. Upphaflega ætlaði ég mér að slá Evrópumótið á EM árið 2022 en ég varð ólétt á þeim tíma og þetta hefur því verið markmið hjá mér lengi,“ sagði Lucie.

Lyftingarnar í sjöunda sæti

Lucie kom til Íslands sem au pair fyrir tíu árum þegar hún var 19 ára gömul en henni hefur gengið vel að aðlagast íslensku samfélagi og líður mjög vel á Íslandi.

„Ég kynntist manninum mínum fljólega eftir komuna til Íslands en í fyrstu tók þetta á. Menningin hér er öðruvísi en í Tékklandi og tungumálið allt annað. Það tók mig líka smátíma að venjast veðrinu en það er allt að koma og í dag líður okkur mjög vel. Það er gott að ala börnin sín upp á Íslandi og við sjáum ekkert annað fyrir okkur en að búa á Íslandi í framtíðinni.

Ég var að taka þetta saman um daginn og það er óhætt að segja að kraftlyftingarnar hafi verið í sjöunda sæti hjá mér á síðustu árum. Framtíðarmarkmiðið er að vinna til gullverðlauna á stórmóti í framtíðinni og því ekki seinna vænna að byrja að læra þjóðsönginn. Ég er farin að kunna lagið en ég þarf aðeins að æfa mig í textanum því ég ætla mér að syngja með þegar ég vinn til gullverðlauna.“

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert