Landsliðsfólk í skíðagreinum er mætt til Íslands til að taka þátt á Atomic Cup-mótaröðinni og Skíðamóti Íslands sem fer fram í Oddsskarði í vikunni og um næstu helgi.
Einnig er er mætt til leiks unga og efnilega skíðafólk landsins ásamt erlendum keppendum frá Mexíkó, Kína og Kanada.
Í dag þriðjudag hófst Atomic Cup-mótaröðin en hún samanstendur af tveimur alþjóðlegum stórsvigsmótum sem fram fóru í dag og tveimur alþjóðlegum svigmótum sem fram fara á morgun í bæði karla- og kvennaflokki. Veðrið lék við keppendur og starfsfólk í Oddsskarði í dag og voru aðstæður mjög góðar.
Á föstudaginn hefst síðan Skíðamót Íslands með keppni í stórsvigi karla og kvenna og á laugardaginn verður keppt í svigi karla og kvenna og eru mótin jafnframt alþjóðleg mót. Skíðamót Íslands lýkur síðan á sunnudaginn með keppni í samhliðasvigi. Það er því sannkölluð skíðaveisla fram undan í Oddskarði.