Kæran eins og þruma úr heiðskíru lofti

Frá leik Fjölnis og SR.
Frá leik Fjölnis og SR. mbl.is/Hákon

Stjórn Skautafélags Reykjavíkur er allt annað en sátt við að Fjölnir hafi kært leik liðsins gegn SA á Íslandsmóti karla í íshokkí vegna ólöglegs leikmanns. SR vann leikinn 3:0 en dómstóll ÍSÍ dæmdi SA 10:0-sigur vegna leikmannsins.

Fyrir vikið fór Fjölnir í úrslitaeinvígi við SA og SR sat eftir með sárt ennið. SR hefur áfrýjað málinu og ætlar að kæra Fjölni fyrir ítrekaða notkun ólöglegra leikmanna í vetur. Var úrslitaeinvíginu því frestað um viku en það átti að hefjast næstkomandi laugardag.

SR sendi frá sér yfirlýsingu eftir að dómur ÍSÍ féll og hefur nú sent frá sér aðra yfirlýsingu, þar sem félagið lýsir yfir ósætti sínu með gang mála.

Yfirlýsinguna má sjá hér fyrir neðan:

Þann 1. mars 2025 móttekur Dómstóll ÍSÍ kæru frá Ungmennafélaginu Fjölni - íshokkídeild, kt.: 631288-7589, Fossaleyni 1, 112 Reykjavík.

Þann 21. mars 2025 er uppkveðinn dómur hjá Dómstóli ÍSÍ á hendur SR vegna framangreindrar kæru í máli nr. 3/2025. Í stjórn SR sitja Erla Jóhannesdóttir, formaður, Bogey Ragnarsdóttir, gjaldkeri, Jóhanna Helga Þorkelsdóttir, ritari, Rut Hermannsdóttir, meðstjórnandi, Bjarni Helgason, meðstjórnandi, Anna Gígja Kristjánsdóttir, varamaður og Benedikta Gabríella Kristjánsdóttir, varamaður.

Enginn framangreindra stjórnarmanna gerði sér grein fyrir því að verið væri að kæra Skautafélag Reykjavíkur í þessu máli. Skautafélag Reykjavíkur er yfirheiti þeirrar starfsemi sem fram fer í Skautahöllinni í Laugardal.

Eins og kemur skýrt fram í 4. gr. laga félagsins þá starfar það í tveimur deildum, listskautadeild og íshokkídeild, sem hafa sameiginlega aðalstjórn. Hvor deild félagsins hefur sérstaka stjórn og sjálfstæðan fjárhag, sbr. 12. gr. framangreindra laga.

Hlutverk aðalstjórnar felst aðallega í samhæfingu á milli deilda félagsins og samskiptum við eigendur Skautahallarinnar í Laugardal ásamt öðrum stærri verkefnum, eins og lýst er í 12. gr. framangreindra laga félagsins. Aðalstjórn kemur ekkert að starfsemi deildanna á annan hátt, þrátt fyrir að meðlimir stjórnarinnar sitji margir í stjórnum deildanna.

Stjórnir deilda fara og með æðsta vald í málefnum deildanna, æðsta vald og hafa endanlegt ákvörðunarvald í öllum málefnum deildanna, sbr. 12. gr. framangreindra laga. Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar stjórn félagsins var bent á það að búið væri að kæra félagið og kveða upp dóm í málinu án þess að stjórnin fengi rönd við reist.

Stjórn SR lýsir því hér með yfir að hún á enga aðkomu að framangreindu kærumáli enda er félagið ekki meðlimur í Íshokkísambandi Íslands, hefur ekkert stjórnunarvald yfir deildum félagsins, annað en aðhaldshlutverk og forsvar þess gagnvart opinberum yfirvöldum og eigendum Skautahallarinnar eins og áður hefur verið komið að.

Stjórn SR krefst þess að framangreindur dómur í máli nr. 3/2025 verði ógiltur þegar í stað og málinu vísað aftur til löglegrar málsmeðferðar hjá Dómstóli ÍSÍ. Stjórn SR áskilur sér fullan rétt til þess að gæta hagsmuna félagsins í hvívetna og mótmælir því harðlega að slík málsmeðferð eigi sér stað hjá Dómstóli ÍSÍ án nokkurrar vitundar eða aðkomu stjórnarinnar.

Virðingarfyllst,
Erla Guðrún Jóhannesdóttir, formaður
Bogey Ragnarsdóttir, gjaldkeri
Jóhanna Helga Þorkelsdóttir, ritari
Rut Hermannsdóttir, meðstjórnandi
Bjarni Helgason, meðstjórnandi
Anna Gígja Kristjánsdóttir, varamaður
Benedikta Gabríella Kristjánsdóttir varamaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka