Lýsti hræðilegu ofbeldi föður síns

Jakob Ingebrigtsen í réttarsal í gær.
Jakob Ingebrigtsen í réttarsal í gær. AFP/Lise Aserud

Réttarhöld yfir Gjert Ingebrigtsen, föður hlauparanna Henriks, Filips og Jakobs Ingebrigtsen, hófust í gær en hann er sakaður um gróft ofbeldi í garð Jakobs, sem er heimsmethafi í 1.500, 2.000 og 3.000 metra hlaupum.

Þá er hann einnig sakaður um að beita Ingrid, yngri systur Jakobs, ofbeldi. Gæti Gjert átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi.

Jakob mætti í réttarsal í gær og lýsti meintu ofbeldi föður síns en þeir hafa ekki talast við síðustu ár. Gjert var þjálfari sona sinna en þeir ráku föður sinn og slitu á öll samskipti við hann.

„Hann sakaði mig um að vera lygara og lamdi mig ítrekað í höfuðið. Ég reyndi að verjast honum en hann hélt áfram að lemja mig. Ég veit ekki hversu oft hann sló mig en þetta tók langan tíma. Ég reyndi bara að verja mig,“ sagði Jakob í réttarsal.

Hlauparinn lýsti því einnig að faðir sinn hafi hent sér af vespu á ferð og sparkað í magann á sér á meðan hann lá í götunni. Þá sakaði hann einnig föður sinn um að hóta sér lífláti.

Kornið sem fyllti mælinn hjá Ingebrigtsen-bræðrum var meint ofbeldi föður síns í garð Ingrid en hann er sakaður um að slá hana í bringuna með blautu handklæði. Ákváðu þeir í kjölfarið að stíga fram og segja opinberlega frá meintu ofbeldi föður síns.

Réttarhöldin standa yfir til 16. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka