Þýski blaðamaðurinn Felix Gorner tjáði sig um ástand þýska ökuþórsins fyrrverandi Michaels Schumachers í samtali við þýska miðilinn RTL á dögunum.
Schumacher, sem er 56 ára gamall, lenti í alvarlegu skíðaslysi í frönsku Ölpunum í desember árið 2013.
Schumacher var í dái í nokkra mánuði og hefur ekki sést opinberlega síðan en mikið hefur verið rætt og ritað um ástand ökuþórsins fyrrverandi undanfarin ár.
„Ástand hans er fyrst og fremst sorglegt,“ sagði Gorner sem hefur fjallað mikið um Formúlu 1-kappaksturinn undanfarin ár og þekkir vel til Schumachers og fjölskyldu hans.
„Hann þarf stöðuga umönnun og er algjörlega háður umönnunaraðilum sínum. Hann getur ekki lengur tjáð sig með orðum. Það eru um tuttugu aðilar sem fá að umgangast hann.
Fjölskylda hans vill takmarka allt aðgengi að honum því ástand hans er fyrst og fremst einkamál fjölskyldunnar. Líf þeirra snýst nú um að vernda hagsmuni Michaels,“ bætti Gorner við.