Gamla ljósmyndin: Tímamót í Grafarvogi

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um eins og gert hefur verið síðustu fimm árin.

Dagskrárliðurinn Gamla ljósmyndin fór í loftið hér á mbl.is 27. mars mars árið 2020. Var þá heimsfaraldurinn skollinn á af þunga og fór íþróttakeppnum fækkandi vegna þess.

Fyrsta myndin sem birtist var tekin af Ólafi K. Magnússyni. Myndin var af Alberti Guðmundssyni fyrsta atvinnumanni þjóðarinnar í knattspyrnu sem þá var í forsetaframboði.

Birtar hafa verið myndir eftir marga ljósmyndara sem komið hafa við sögu á Morgunblaðinu og mbl.is og mörgu af þekktasta íþróttafólki landsins hefur brugðið fyrir á myndunum. Til þessa hafa myndirnar eða fólkið á myndunum tengst eftirtöldum íþróttagreinum:

Knattspyrnu, frjálsum, handknattleik, fimleikum, sundi, júdó, körfuknattleik, tennis, golfi, borðtennis, badminton, alpagreinum skíðaíþrótta, hestaíþróttum, kraftlyftingum, rallý, blaki, snóker, siglingum, hjólreiðum, skotfimi og íshokkí.

Sé smellt á Gamla ljósmyndin í knippinu sem fylgir greininni er hægt að kynna sér allar myndirnar sem birtar hafa verið á þessum fimm árum. 

Þennan laugardaginn rifjum við upp fyrsta Íslandsmeistaratitil Grafarvogsbúa í meistaraflokki í hópíþrótt. Í marsmánuði árið 2012 varð Björninn Íslandsmeistari karla í íshokkí eftir nokkuð óvæntan sigur gegn Skautafélagi Reykjavíkur í úrslitarimmunni. Einnig taldist þá mjög til tíðinda að Akureyringar náðu ekki inn í úrslitaeinvígið en SA er lang sigursælasta félagið í íþróttinni hérlendis. 

Frá því Björninn hafði sent lið til leiks höfðu verið margar hindranir í veginum og þegar liðið varð Íslandsmeistari braust út ósvikin gleði í Egilshöllinni en uppselt var á síðasta leikinn þar sem úrslitin réðust.

Kjartan Þorbjörnsson eða Golli fangaði augnablikið vel með þessari mynd af Sergei Zak eftir að Grafarvogsbúar höfðu tekið við bikarnum. Rússinn Sergei Zak hafði komið til félagsins tólf árum áður sem leikmaður og þjálfari og átti mikinn þátt í uppbyggingunni hjá félaginu. Í fjórða og síðasta úrslitaleiknum gegn SR skoraði hann þrennu í 7:4 sigri. 

Ef rýnt er í myndina virðist Brynjar Bergmann vera lengst til vinstri. Á bak við vinstri handlegg Sergeis má greina Gunnar Guðmundsson og lengst til hægri er líklega Birkir Árnason þáverandi fyrirliði Bjarnarins. 

Björninn rann síðar inn í Ungmennafélagið Fjölni í Grafarvogi en sigurinn 2012 er eini sigur Bjarnarins eða Fjölnis á Íslandsmóti karla í íshokkí. Kvennalið Fjölnis varð á dögunum Íslandsmeistari í íþróttinni annað árið í röð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert