Sonja Li Kristinsdóttir úr SKA og Gauti Guðmundsson úr KR urðu Íslandsmeistarar í svigi á Skíðamóti Íslands í Oddsskarði í gær.
Sonja Li kom í mark á tímanum 1:57,10 mínútur er hún átti frábæra fyrri ferð sem skilaði henni miklu forskot á landsliðskonuna Hólmfríði Dóru Friðgeirsdóttur úr Ármanni sem hafnaði í öðru sæti.
Hólmfríður Dóra átti betri aðra ferð og endaði aðeins 0,14 sekúndum á eftir Sonju. Liðsfélagi hennar Sara Mjöll Jóhannsdóttir var síðan þriðja á tímanum 2:01,14.
Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill Sonju Li í fullorðinsflokki.
Gauti Guðmundsson kom í mark á tímanum 1:46,04 mínútur en hann var með næstbesta tímann eftir fyrri ferðina á eftir Jóni Erik Sigurðssyni úr Fram.
Seinni ferð Gauta var mun betri og vann hann mótið en Jón Erik náði ekki að ljúka keppni.
Í öðru sæti hafnaði Bjarni Þór Hauksson úr Víkingi á tímanum 1:47,30 mínútur og í þriðja sæti Dalvíkingurinn Torfi Jóhann Sveinsson á tímanum 1:52,41 mínútur.
Þetta var einnig fyrsti Íslandsmeistaratitill Gauta í fullorðinsflokki.