Bandaríska fimleikakonan Simone Biles fékk ógeðfelld skilaboð frá netníðingi á dögunum en hún birti skjáskot af skilaboðunum á Instagram-síðu sinni í gær.
Biles, sem er 28 ára gömul, er sigursælasta fimleikakona sögunnar en hún er ein af þeim fjölmörgu sem var misnotuð af Dr. Larry Nassar, fyrrverandi lækni bandaríska landsliðsins í áhaldafimleikum.
Nassar var dæmdur í 175 ára fangelsi fyrir að brjóta á fjölda kvenna en hann starfaði sem læknir landsliðsins í 18 ár.
„Varstu misnotuð af þessum Nassar-þjálfara?“ fékk Biles sent á samfélagsmiðlunum Instagram og netníðingurinn var ekki hættur.
„Ekki svara fyrir gagnrýni á internetinu um þig og hjónabandið þitt. Það er óþroskað og sýnir að þú err skemmdur varningur,“ bætti netníðingurinn svo við en skilaboðin voru nafnlaus.
„Ég vona að þið séuð að eiga betri dag en ég. Þetta eru skilaboðin sem ég fæ frá nafnlausum einstaklingum. Þú þarft að vera ansi brenglaður til þess að senda þetta á aðra manneskju,“ bætti Biles svo við.