Fjölnir átti ekki kærurétt og SR í úrslit

SR og SA mætast í úrslitum eftir allt.
SR og SA mætast í úrslitum eftir allt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

SR leikur við SA í úrslitum Íslandsmóts karla í íshokkí eftir að kæru Fjölnis var vísað frá af áfrýjunardómstóli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Fjölnir kærði SR fyrir að nota ólöglegan leikmann í sigri liðsins á SA. Var SA úrskurðaður sigur, sem þýddi að Fjölnir tók sæti SR í úrslitum gegn Akureyrarliðinu.

SR áfrýjaði þeim úrskurði og nú er ljóst að SR mætir SA í úrslitum eftir allt saman.

Niðurstaða áfrýjunardómstóls ÍSÍ í heild sinni:

Áfrýjunardómstóll ÍSÍ. Skautafélag Reykjavíkur gegn Ungmennafélagi Fjölnis - íshokkídeild Með bréfi dagsettu 28. mars 2025 krafðist áfrýjandi, Skautafélag Reykjavíkur þess aðallega að dómi dómstóls ÍSÍ nr. 3/2025 kveðinn upp 21. mars 2025, um að áfrýjandi teldist hafa tapað leik við Skautafélag Akureyrar, sem fram fór 22. febrúar sl. í Toppdeild karla með markatölunni 0 – 10, yrði vísað frá dómi og til vara að áfrýjandi yrði sýknaður af kröfu vegna meintrar ólögmætrar leikheimildar og meintrar ólögmætrar leikskýrslu.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Mál þetta var dómtekið 1. apríl 2025 eftir að aðilar höfðu gert grein fyrir sjónarmiðum sínum. Að því er varðar aðild Skautafélags Reykjavíkur verður ekki fallist á að rangur aðili hafi verið kærður í málinu frá upphafi.

Almennt verður að játa aðalfélagi rúmt aðildarhæfi þegar mál varðar einstakar deildir þess, þó einnig geti komið til greina að beina kröfum að viðkomandi deild. Þá tók Skautafélag Reykjavíkur til efnislegra varna í málinu fyrir dómstól ÍSÍ og gerði engar athugasemdir við aðild málsins varnarmegin fyrr en eftir að niðurstaða dómsins lá fyrir.

Verður málinu ekki vísað frá dómi af þessum ástæðum. Samkvæmt ákvæði 31.1. laga ÍSÍ um kærurétt fyrir dómstól ÍSÍ, hefur rétt til kæru hver sá, einstaklingur, félag og félagasamtök sem misgert er við og hagsmuni hafa af niðurstöðu máls. Í hinum áfrýjaða dómi er farið yfir hagsmuni stefnda af málssókninni og eru ekki gerðar athugasemdir við röksemdir dómsins um að stefndi kunni að hafa hagsmuni af niðurstöðu umrædds leiks. Það er hins vegar ekki eina skilyrðið fyrir kærurétti stefnda.

Samkvæmt ákvæðinu þarf einnig að uppfylla það skilyrði að misgert hafi verið við stefnda. Við mat á því getur skipt máli hvort kærandi hafi verið beinn þátttakandi í leiknum. Í hinum áfrýjaða dómi er ekki að finna umfjöllun um þetta skilyrði. Stefndi var ekki þátttakandi í umræddum leik. Hann byggir málatilbúnað sinn á því að áfrýjandi hafi notað, sem varamarkmann, leikmann sem fullnægði ekki skilyrðum 3. gr. reglugerðar um félagaskipti.

Félagið hafði þó engu að síður fengið útgefna leikheimild fyrir viðkomandi leikmanni sem hafði hvorki spilað á yfirstandandi leiktíð né á tímabilinu þar á undan. Þá er byggt á því að leiðrétting hafi ekki verið gerð í tölvukerfi varðandi fjölda markvarða, heldur á útprentuðu skjali undirrituðu af starfsmönnum beggja liða.

Fyrir liggur að einungis tveir markverðir tóku þátt í umræddum leik og var sá markvörður sem strikað var yfir á leikskýrslu ekki annar þeirra. Þá liggur einnig fyrir að sá leikmaður sem fékk þá leikheimild útgefna sem fjallað er um í þessu máli, sat á varamannbekk og kom ekki inn á.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að framangreind atvik séu þess eðlis að þau feli í sér að misgert hafi verið við stefnda í skilningi greinar 31.1 í lögum ÍSÍ. Verður því ekki talið að stefndi hafi átt kærurétt í máli þessu og með því fallist á aðalkröfu áfrýjanda að málinu verði vísað frá dómstól ÍSÍ. Dómur Máli nr. 3/2025 er vísað frá dómstól Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert