Píludeild Þórs á Akureyri stendur fyrir stærsta pílumóti landsins, Akureyri Open, í Sjallanum um helgina. Á mótinu stendur Þór fyrir góðgerðarleik þar sem fé sem safnast mun renna til Hetjanna, félags langveikra barna á Norðurlandi.
Mótið kallast Sjally Pally með tilvísun í Alexandra Palace í Lundúnum, þar sem heimsmeistaramótið í pílukasti fer fram ár hvert.
Sjally Pally fer fram í kvöld 4. apríl og á morgun laugardaginn 5. apríl og verður mikið um dýrðir. Hinn þekkti Russ Bray mun tilkynna stigin og lýsandinn kunni John McDonald hefur sömuleiðis lagt land undir fót til að kynna mótið.
Alls eru 224 keppendur skráðir til leiks, í Sjallanum eru 36 píluspjöld og verðmæti vinninga er að andvirði þriggja milljóna króna.
Búið er að selja 400 miða á laugardagskvöldið.