Kanadíska goðsögnin Wayne Gretzky er ekki lengur markahæsti leikmaðurinn í sögu NHL-deildarinnar í íshokkí.
Gretzky sem var einn frægasti íþróttamaður heimsins á sínum tíma skoraði 894 mörk á glæsilegum ferli í deildinni sem spannaði tvo áratugi.
Alexander Ovechkin, leikmaður Washington Capitals, sló metið í gær og hafði jafnað við Gretzky í leiknum þar á undan með því að skora tvívegis. Met Gretzky stóð í 26 ár.
Eitt merkilegasta metið í amerískum hópíþróttum er því í eigu Rússa en lengi var talið ólíklegt að met Gretzky yrði slegið. Ovechkin er 39 ára gamall og hefur einnig verið í deildinni í tvo áratugi. Hann hefur haldið vel á spöðunum til að geta slegið met sem þetta, eða á kylfunni öllu heldur.
Capitals valdi hann fyrstan í nýliðavalinu árið 2004 og Rússinn hefur heldur betur staðið undir væntingum. Hann hefur haldið tryggð við félagið og varð liðið NHL-meistari árið 2018.
Gretzky og Ovechkin eru svolítið sér á parti á listanum yfir markahæstu menn en einn leikmaður til viðbótar hefur skorað fleira en 800 mörk í deildinni en það gerði Kanadamaðurinn Gordie Howe. Alls 801. Met hans stóð í 19 ár.