Íslandsmótið í hópfimleikum fór fram í dag í fimleikahúsinu á Akranesi. Lið Stjörnunnar komu, sáu og sigruðu og tóku gullið í öllum flokkum.
Þetta er í sjöunda sinn í röð sem kvennalið Stjörnunnar vinnur Íslandsmeistaratitilinn. Keppnin í kvennaflokki var afar jöfn og spennandi til loka.
Stjarnan sigraði með 51.950 stig, aðeins 0.05 stigum á undan Gerplu, sem hafnaði í öðru sæti. Selfoss endaði í þriðja sæti. Stjarnan sigraði einnig á gólfi og trampólínu en Gerpla hafði betur á dýnu.
Í flokki blandaðra liða hafði Stjarnan betur gegn ÍA og sigraði með 47.750 stig.
Karlalið Stjörnunnar tryggði sér einnig Íslandsmeistaratitilinn með 46.200 stig.