Karlasveit Sundfélags Hafnarfjarðar sló Íslandsmetið í 4x100 metra skriðsundi í Laugardalslauginni í dag.
Þeir syntu á tímanum 3:26,14 mínútur og bættu þar með sjö ára gamalt met um fimm sekúndur. Sveitina skipuðu Birnir Freyr Hálfdánarson, Veigar Hrafn Sigþórsson, Símon Elías Statkevicius og Ýmir Chatenay Sölvason.
Í 50 metra baksundi sigraði Guðmundur Leó Rafnsson á tímanum 26,75 sekúndur. eftir harða keppni við Fannar Snævar Haukson sem varð annar á 26,88 sekúndur.
Þetta var annar Íslandsmeistaratitill Guðmundar á mótinu en hann bætti svo við þriðja gullinu þegar hann sigraði 100 metra skriðsund á 51,99 sekúndum. eftir hörkukeppni við Ými Chatenay Sölvason sem kom í mark á 52,03 sekúndum. og varð í öðru sæti.
Í 400 metra fjórsundi kvenna sigraði Eva Margrét Falsdóttir með yfirburðum á tímanum 5:02,63 mínútur og hlaut þar með sinn annan Íslandsmeistaratitil en hún hafði áður unnið 200 m bringusund.
Andri Már Kristjánsson sigraði í 1500 metra skriðsundi karla á tímanum 16:30,59 mín. sem jafnframt er átta sekúndna bæting hjá honum.
Adam Leó Tómasson vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í 200 metra fjórsundi með tíma upp á 2:11,71 mín.
Ylfa Lind Kristmannsdóttir tryggði sér sinn annan Íslandsmeistaratitil þegar hún sigraði 100 metra baksund á 1:04,92 mín.
Í 50 metra bringusundi karla sigraði Snorri Dagur Einarsson á 27,79 sekúndur, aðeins 0,33 sekúndum frá Íslandsmeti Antons Sveins McKee. Þetta var annar titill Snorra sem hafði áður sigrað í 100 m bringusundi.
Í 100 metra bringusundi kvenna stóð Birgitta Ingólfsdóttir uppi sem sigurvegari með tímann 1:10,47 mín. og Hólmar Grétarsson sigraði 200 metra flugsund karla á 2:05,41 mín.
Katja Lilja Andryisdóttir kom fyrst í mark í 800 metra skriðsundi kvenna á tímanum 9:20,77 mín.
Að lokum sigraði kvennasveit SH í 4x100 metra skriðsundi á tímanum 3:54,26 mín. Í sveitinni voru þær Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Vala Dís Cicero, Nadja Djurovic og Birgitta Ingólfsdóttir.
Síðasti dagur mótsins hefst í fyrramálið kl. 9:00 og síðasti úrslitahlutinn hefst kl. 16.30.