Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Þessari skemmtilegu mynd náði Brynjar Gauti Sveinsson í Valletta á Möltu þegar Smáþjóðaleikarnir fóru þar fram í júní árið 2003 eða fyrir tæpum tuttugu og tveimur árum.
Ísfirðingurinn Hjördís Erna Ólafsdóttir er á þessu augnabliki að átta sig á því að hún hafði tryggt sér sigur í glímunni um bronsverðlaun í -57 kg flokki í júdó á leikunum.
Hún er enn með andstæðinginn í heljargreipum en virðist í sama mund steyta vinstri hnefann til að fagna áfanganum. Um tímamóta árangur var að ræða fyrir Hjördísi á erlendri grundu.
Í þeim hamagangi sem getur fylgt þegar keppendur eru komnir í gólfið í júdó-inu getur verið undir hælinn lagt hvort keppendur snúi í áttina að ljósmyndara eða ekki. Í þessu tilfelli horfir íslenski keppandinn í áttina að Brynjari þegar sigurinn er í höfn.
„Hjördís Ólafsdóttir kom líka á óvart og hún var að vinna sín fyrstu verðlaun erlendis og það má segja það sama um hana og Mána [Andersen], hún hefur rétta skapið í þetta og er dugleg,“ sagði landsliðsþjálfarinn Bjarni Friðriksson í spjalli við Skúla Unnar Sveinsson sem annaðist umfjöllun um leikana fyrir Morgunblaðið og mbl.is ásamt Brynjari.
Smáþjóðaleikarnir eru fjölgreinamót fyrir þjóðir með eina milljón íbúa eða minna og stendur alþjóða ólympíuhreyfingin fyrir leikunum. Leikarnir voru haldnir í fyrsta sinn árið 1985 og fara fram á tveggja ára fresti.
Næstu leikar eru á dagskrá snemma í sumar og hefjast 26. maí en þeir fara að þessu sinni fram í Andorra. Íslendingar hafa tvívegis verið gestgjafar. Í fyrra skiptið árið 1997 og 2016 í síðara skiptið.