Nefnd um kappræður formanna stjórnmálaflokka í Kanada hefur fundið sig tilknúna að flýta kappræðum frönskumælandi formanna í tengslum við þingkosningar, vegna íshokkíleiks kanadíska liðsins Montreal Canadiens í NHL-deildinni vestanhafs.
Liðið á fyrir höndum mikilvægan leik gegn Carolina Hurricanes þar sem sigur gæti tryggt Canadiens sæti í úrslitakeppni deildarinnar.
Leikurinn er á dagskrá annað kvöld klukkan 19 að staðartíma en kappræður frönskumælandi formanna í Montréal áttu að hefjast klukkan 20 sama kvöld, þegar leikurinn er um það bil hálfnaður.
Kappræðunum hefur nú verið flýtt og hefjast þess í stað klukkan 18 annað kvöld.
„Kappræðurnar munu hefjast tveimur klukkustundum fyrr með hliðsjón af því hversu ástríðufullir Kanadamenn eru þegar kemur að íshokkí.
Borgarbúar munu geta fylgst með þessu mikilvæga augnabliki í kosningabaráttunni ásamt því að geta fylgst með mikilvægustu augnablikum íshokkíleiksins sem getur komið Montreal Canadiens í úrslitakeppnina,“ sagði í yfirlýsingu frá nefndinni.