Knattspyrnukonan Ísabella Sara Tryggvadóttir gekk nokkuð óvænt til liðs við Svíþjóðarmeistara Rosengård frá Val á dögunum.
Ísabella, sem er einungis 18 ára gömul, skrifaði undir þriggja ára samning í Malmö en hún hefur leikið með Val frá árinu 2023.
Hún varð Íslandsmeistari með liðinu tímabilið 2023 og bikarmeistari á síðustu leiktíð en alls á hún að baki 58 leiki í efstu deild og 11 mörk með Val og uppeldisfélagi sínu KR. Þá á hún að baki 46 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hún hefur skorað 14 mörk.
„Mér líst mjög vel á þetta allt saman og ég er ótrúlega spennt fyrir tímabilinu,“ sagði Ísabella í samtali við Morgunblaðið.
„Áhugi Rosengård kom mjög óvænt upp og ég fékk símtal frá umboðsmanni mínum í mars þar sem ég heyrði fyrst af áhuganum. Þegar ég heyrði fyrst af áhuganum voru átta dagar í það að félagaskiptaglugganum yrði lokað í Svíþjóð. Þeir sýndu mér mikinn áhuga sem endaði með því að þeir buðu mér samning. Ég fékk því ekki mikinn umhugsunarfrest en ég ákvað að taka slaginn og flaug svo út til Svíþjóðar í lok mars,“ sagði Ísabella.
Ísabella sat nokkra fjarfundi með þjálfarateymi og forráðamönnum Rosengård áður en hún tók ákvörðun um að fara til Svíþjóðar.
„Hausinn á mér var á fullu og þetta var mjög erfið ákvörðun að taka. Mig langaði líka mikið til þess að taka slaginn með Val, ná heilu tímabili með liðinu og virkilega springa út. Ég hef verið inn og út úr liðinu frá því að ég kom frá KR og mig langaði til þess að negla mitt sæti í byrjunarliðinu í ár. Ég sat marga fjarfundi þar sem ég ræddi við bæði þjálfarateymið og forráðamenn Rosengård.
Þeir ræddu um sína sýn á félagið og hvernig þeir sæju næstu ár fyrir sér. Það gafst aldrei tími til þess að fara út og skoða aðstæður en þeir útskýrðu allt mjög vel fyrir mér sem gerði ákvörðunina auðveldari. Þegar allt kom til alls þá var þetta tækifæri sem ég gat ekki sleppt og ég ákvað því að kýla á þetta.“
Viðtalið í heild sinni má sjá í Morgunblaði dagsins.