Eygló Fanndal Sturludóttir gerði sér lítið fyrir og varð Evrópumeistari í -71 kg flokki í ólympískum lyftum á EM í Moldóvu í gær. Hún bætti þrjú Íslands- og Norðurlandamet í leiðinni og getur sannarlega farið stolt heim.
Fjallað er um Eygló á vef Lyftingasambands Evrópu og þar er hún titluð þjóðhetja eftir afrek gærdagsins en verðlaunin eru þau fyrstu sem Íslendingur vinnur á EM fullorðinna.
Þar er einnig viðtal við Eygló, þar sem hún viðurkenndi að sigurinn hafi komið sér á óvart. Einnig er viðtal við móður hennar, Hörpu Þorláksdóttur, sem er formaður Lyftingasambands Íslands.
„Hún er að skara fram úr í bæði náminu og lyftingunum. Ég er stoltasta mamma í heimi. Allt Ísland er stolt af Eygló,“ er haft eftir henni.
Umfjöllunina má nálgast með því að smella hér.
Viðtal og umfjöllun um afrek Eyglóar má nálgast í Morgunblaðinu sem kemur út í fyrramálið.